Eftirfarandi ummæli dr. Ingvars Sigurgeirssonar, prófessors við Kennaraháskóla Íslands í lok bókar hans Litróf kennsluaðferðanna (1999) eru birt hér til umhugsunar fyrir þá sem eru að kynna sér nýjar og breyttar kennsluaðferðir: 

Raunveruleg viðfangsefni
Oft er því haldið fram að í skólastarfi, einkum í grunnskólum og á bóknámsbrautum í framhaldsskólum, sé fullt af tilbúnum viðfangsefnum, nánast gerviviðfangsefnum, sem séu í litlum sem engum tengslum við raunverulegt líf utan skólans. Það er eins og það vilji gleymast að hlutverk skólans er að búa nemendur undir alvöru lífsins, líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi eins og það heitir gjarnan á laga- og námskrármáli. Því má færa fyrir því rök að allt of lítið sé af því gert á öllum skólastigum að fá nemendum raunveruleg viðfangsefni að glíma við. Skólastarf gefur fjölmörg tækifæri til viðfangsefna af þessu tagi, sem hvort tveggja má kljást við innan sem utan skólans. Það er raunar umhugsunarefni að viðfangsefni af þessu tagi eru oft ekki talin með þegar gerð er grein fyrir námsárangri. Nægir þar að nefna t.d. þátttöku í starfi nemendafélags, sem vitaskuld er jafn lærdómsríkt og oft lærdómsríkara en margar kennslustundir í hefðbundinni stundatöflu. Annað dæmi er blaðaútgáfa sem nemendur fá stundum að annast. Ég þekki fá dæmi um að hún hafi verið talin fram til námsmats, enda þótt hún feli oft í sér markvisst og hagnýtt móðurmálsnám
.

Dæmi um viðfangsefni [Ath. sjá nánari útskýringar við hvern lið á bls. 159-160 í bókinni]:

  • Rekstur útvarpsstöðvar

  • Leiksýningar

  • Brúðuleikhús

  • Íþróttakeppni

  • Myndlistarsýningar

  • Ljósmyndasýningar

  • Aðrar sýningar

  • Kvikmyndagerð

  • Fjáröflun til styrktar góðu málefni

  • Tónlistarflutningur

  • Hönnun og markaðssetning vöru eða þjónustu

  • Bókaútgáfa

  • Ræktun

  • Umhverfisverkefni af ýmsu tagi

  • Náttúrugripasöfnun (smá og stór)

  • Rekstur mötuneytis eða greiðasölu

  • Rekstur skólasafns eða bókasafns

  • Kennslugagnagerð

  • Uppsetning vefsíðna

  • Nýsköpun, hönnun, uppfinningar

Meginatriði við skipulagningu verkefna af þessu tagi er að nemendur þurfi sjálfir sem allra mest að halda í alla þræði á öllum stigum og bera sem mesta ábyrgð á framvindu og úrlausnum. Því meiri ábyrgð sem tekst að koma á herðar nemenda af undirbúningi og framkvæmd, þeim mun líklegra er að námið skili þeim árangri sem að er keppt.

_______
Heimild:
Ingvar Sigurgeirsson (1999). Litróf kennsluaðferðanna. Reykjavík. Æskan h.f. blaða- og bókaútgáfa.