Meistaraprófsverkefni þetta er upplýsingasetur á Netinu um þá náms- og kennsluaðferð sem kennd er við lausnaleitarnám (á ensku Problem-Based Learning). Lausnaleitarnám er aðferð sem byggist á umræðum og þekkingarleit til lausnar á raunverulegum vandamálum. Þessari aðferð er ætlað að stuðla að sjálfstæði í námi og búa nemendur undir að takast á við flókin viðfangsefni og leysa þau. Viðfangsefnin sem nemendur glíma við geta verið af ýmsu tagi en verða að vera þess eðlis að nemendum gefist kostur á að nýta þá þekkingu sem þeir búa að þegar þeir hefjast handa jafnframt því að koma af stað gagnrýninni hugsun sem síðan leiðir til áframhaldandi náms. Á setrinu er hægt að nálgast fjölþættar upplýsingar um lausnaleitarnám, uppruna þess og framkvæmd sem og leiðbeiningar og góð ráð fyrir kennara sem eru að taka upp lausnaleitarnám. Ennfremur er þar að finna upplýsingar og góð ráð fyrir nemendur þeirra. Markmið setursins er að kennarar og aðrir sem áhuga hafa á breyttum kennsluháttum geti nálgast sem ítarlegastar upplýsingar um lausnaleitarnám á einum og sama stað. Í því skyni er jafnframt vísað á önnur upplýsingasetur um nám af þessu tagi þar sem væntanlega verður hægt að nálgast frekari upplýsingar um valið efni ef óskað er.

Með verkefninu er lögð fram greinargerð sem hýst er á vef upplýsingasetursins þar sem gerð er nánari grein fyrir megineinkennum og markmiðum lausnaleitarnáms. Fjallað er um uppruna þess, hugmyndafræði og kenningar, framkvæmd og rannsóknir og leitast við að draga fram atriði sem snerta kennslufræðilegt gildi aðferðarinnar.