Það má með sanni segja að náms- og starfsferill minn sé að mörgu leyti mjög óhefðbundinn. Ég er fædd og uppalin í Reykjavík og hef búið þar alla tíð. Sautján ára staðfesti ég ráð mitt og nýorðin nítján ára var ég orðin útivinnandi húsmóðir með eitt barn. Hafði ég þá lokið gagnfræðaprófi sem reyndist mér mjög gott veganesti í störfum mínum næstu þrjátíu árin. Þó blundaði alltaf í mér löngun til frekara náms hafði dreymt um það sem stelpa að feta í fótspor pabba og fara í Verzlunarskólann að loknu fullnaðarprófi sem það hét þá en einhverra hluta vegna varð það ekki að veruleika þá.

Þar sem starfsferill minn er orðinn nokkuð langur þá má segja að starf mitt hafi þróast með tækninni. Í gagnfræðaskóla lærði ég blindskrift á handknúna ritvél en var samt fljót að ná  Ameríkuhraða eins og vélritunarkennarinn minn kallaði það og þegar að sumarvinnu á skrifstofum Sambands íslenskra samvinnufélaga kom þá vann ég við  IBM kúluritvél. Að gagnfræðaprófi loknu, þegar ég var sextán ára, þá fór ég að vinna hjá Samvinnutryggingum þar sem ég var næstu tuttugu árin tók mér þó samtals fimm ára hlé á þessum tuttugu árum til að gæta bús og barna. Nokkrum árum eftir að ég byrjaði að vinna hjá Samvinnutryggingum tók ég virkan þátt í tölvuvæðingu fyrirtækisins sem þá var stærsta tryggingafélag landsins. Vann þá við svokallaða gatara en öll úrvinnsla fór fram í stórtölvum þess tíma. Síðan vann ég nokkur ár í Samvinnubankanum og hjá Verkfræðistofunni Vatnaskil þar sem ég öðlaðist mjög dýrmæta reynslu á mörgum sviðum. Þar fór ég að vinna við tölvu árið 1982 og hef nánast ekki sleppt hendinni af henni síðan.

Árið 1986 þegar öldungadeild Verzlunarskóla Íslands tók til starfa þá sló ég til og innritaði mig í hana og var jafnframt í 60% starfi og með sjö manna heimili. Tók verslunarpróf þar að tveimur árum liðnum sem reyndist mér mjög létt þar sem ég hafði mjög góðan grunn úr gagnfræðaskólanum sem ég hafði haldið vel við. Þá fóru hjólin heldur betur að snúast!

Til að ná verslunarprófi þurfti ég að taka stöðupróf í vélritun sem mér fannst nú pínulítið broslegt þá þar sem ég hafði hátt í þrjátíu ára starfsreynslu sem ritari m.m. og í ritvinnslu þurfti ég sækja tíma þó ég hefði unnið fjögur ár við ritvinnslu en hafði notað annað forrit en kennt var. Nú sem kennari skil ég að sjálfsögðu mjög vel þessa ráðstöfun og eftir á var ég mjög þakklát að þurfa að taka ritvinnsluna þar sem ég fékk þá hugdettu á meðan á því stóð að sennilega gæti ég nýtt starfsreynslu mína til að gerast ritvinnslukennari í framhaldsskóla.

Leitaði mér síðan upplýsinga um hvað ég þyrfti að gera til þess og sótti um inngöngu í 30 eininga nám í uppeldis- og kennslufræðum fyrir starfgreinakennara [UT-nám] við Kennaraháskóla Íslands og fékk inngöngu. Verslunarpróf ásamt umtalsverðri starfsreynslu varð mér til framdráttar þá þar sem ég var ekki með neitt annað próf í farteskinu. Lauk ég síðan stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands og jafnframt prófi í uppeldis og kennslufræðum til kennsluréttinda frá Kennaraháskóla Íslands vorið 1990.

Haustið 1989 þegar ég var hálfnuð í kennsluréttindanáminu byrjaði ég að kenna tölvufræði og ritvinnslu við Fjölbrautaskólann við Ármúla og hef kennt þar síðan  ýmsar tölvutengdar greinar í dagskóla og í fjar- og dreifnámi. Hef auk þess beitt mér fyrir því frá upphafi með dyggum stuðningi skólameistara að koma á nýjum og bættum kennsluháttum með hjálp tölvutækninnar. Samhliða kennslu við FÁ hef ég gegnt starfi verkefnisstjóra við Kennslumiðstöð Háskóla Íslands sem sér meðal annars um endurmenntun háskólakennara.

Þegar ég hafði lokið stúdentsprófi og öðlast kennsluréttindi þá langaði mig fljótlega að læra meira og reyndin hefur orðið sú að ég hef nánast ekki hætt að læra síðan. Fyrst þreifaði ég fyrir mér í Tölvuháskólanum forvera Háskólans í Reykjavík og í Háskóla Íslands og tók nokkur námskeið þar, síðan sótti ég í tvígang um framhaldsnám í kennslufræðum við Framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands en komst í hvorugt skiptið að þar sem mjög takmarkaður fjöldi var tekinn inn. Leiddist mér þá biðin og fór í fjarnám í tveimur greinum haustið 1996 við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn og þá fóru hjólin að snúast fyrir alvöru!

Mjög fljótlega eftir að ég byrjaði í fjarnáminu vaknaði löngun hjá mér til að kenna mína kennslugrein tölvufræðina í fjarnámi. Ýmis tormerki voru á því til að byrja með en í janúar 1997 sá skólameistari minn leið til að koma til móts við mig og leyfði mér að bjóða upp á fjarnámskeið í tölvufræðum fyrir starfandi sjúkraliða sem flokkaðist undir endurmenntunarnámskeið. Það tókst mjög vel og eftir því sem ég kemst næst þá voru þær konur sem þar tóku þátt fyrstar hér á landi til að útskrifast af alhliða fjarnámskeiði í tölvufræðum.

Í framhaldi af þessari góðu reynslu bauðst ég til að taka að mér sambærilega fjarkennslu fyrir Rafiðnaðarskólann og Viðskipta- og tölvuskólann en í þeim síðarnefnda hafði ég kennt tölvufræði og almenna skjalavörslu frá því vorið 1994. Fjarkennsla í tölvufræðum við þessa skóla hófst haustið 1997 og sá ég alfarið um hana þar til vorið 2000 en þá komu fleiri fjarkennarar inn í dæmið. Hætti ég þar skömmu síðar enda farin að róa á önnur mið.

Í ágúst 1997 var mér boðið að taka þátt í ráðstefnu í Gautaborg á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar IDUN þar sem kynnt var allt það nýjasta í fjarkennslumálum fyrir fullorðna. Var það mikill fengur fyrir mig auk þess að kynnast þar öðrum kennurum, jafnt íslenskum sem erlendum sem hafa sömu áhugamál og ég í sambandi við fullorðinsfræðslu með hjálp Internetsins.

Vorið 1998 var auglýst framhaldsnám í tölvu- og upplýsingatækni við Kennaraháskóla Íslands og lét ég mig hafa það að sækja um þar í þriðja sinn og fékk inngöngu. Námið var auglýst fyrir frumkvöðla í tölvu- og upplýsingatækni og nú kom að því í annað sinn að starfsreynsla mín og umtalsverð kennslugagnagerð en ekki háskólagráða dugði til inngöngu í KHÍ. Þegar hér var komið sögu þá var ég satt að segja mjög þakklát fyrir það að hafa verið hafnað í hin tvö skiptin. Hefði ég komist inn í skólann fyrr þá hefði mér ekki staðið til boða nám í tölvu- og upplýsingatækni en sú námsbraut var þá ný af nálinni.

Haustið 1999 útskrifaðist ég með Diplomapróf í tölvu- og upplýsingatækni og segi hér og nú að að aldrei á ævi minni hef ég lært eins mikið á jafn stuttum tíma! Það sem ég lærði í framhaldsdeild KHÍ hefur hreinlega opnað nýjan heim fyrir mér í tölvu- og upplýsingatækni og taldi ég mig þó engan nýgræðing fyrir! Og síðast en ekki síst gert mér kleift að taka að mér einstaklega spennandi starf við Kennslumiðstöð Háskóla Íslands sem ég hefði annars aldrei látið mig dreyma um að gefa kost á mér í. Þar vann ég í tæp fjögur ár í hlutastarfi þar sem ég annaðist kennslu og kynningar fyrir háskólakennara þar sem lögð var áhersla á nútímalegar aðferðir í kennsluháttum, s.s. notkun kennsluumhverfis á Netinu, uppsetningu á kennslugögnum í vefrænu formi og fleira slíkt.

Það var vorið 2000 sem ég komst fyrst í kynni við náms- og kennsluaðferðina lausnaleitarnám eða Problem-Based Learning eins og hún nefnist á ensku. Það var í tengslum við vinnu mína fyrir Kennslumiðstöð Háskóla Íslands en hún kom til tals þegar ég var að aðstoða dr. Stefán B. Sigurðsson, prófessor og félaga hans við læknadeildina að setja upp WebCT kennsluumhverfið. Hin nánu tengsl lausnaleitarnáms við tölvu- og upplýsingatækni gerðu það að verkum að ég fékk strax mikinn áhuga á aðferðinni og fór að lesa mér til um hana. Haustið 2000 sótti ég svo námskeiðið Nám og kennsla um aldahvörf við Kennaraháskóla Íslands [KHÍ] í því skyni að kynnast helstu kenningum og kennsluaðferðum sem efst eru á baugi þ.á.m. lausnaleitarnámi og var þá ekki aftur snúið. Allar götur síðan hefur það skipað veigamikinn sess í framhaldsnámi mínu við KHÍ. Fyrstu drög að upplýsingasetri um lausnaleitarnám á vefslóðinni: www.pbl.is urðu til á fyrrnefndu námskeiði.

Sumarið 2001 átti ég þess kost að sækja námskeiðið Integrating Active Learning with Online Resources sem haldið var við Institute for Transforming Undergraduate Education [ITUE] við Háskólann í Delaware sem er í fararbroddi í notkun og útbreiðslu lausnaleitarnáms. Í júní 2002 sótti ég síðan fjölmenna alþjóðlega ráðstefnu og námskeið í Baltimore: PBL 2002 - A Pathway To Better Learning sem Háskólinn í Delaware stóð meðal annars að. Þessa ráðstefnu sóttu á fimmta hundrað kennara og skólastjórnenda frá öllum heimsálfum, aðallega á háskólastigi.

Vorið 2002 lauk ég svo Dipl.Ed. prófi í uppeldis og kennslufræði með áherslu á tölvu- og upplýsingatækni við Kennaraháskóla Íslands og nú er komið að lokasprettinum í námi mínu og geri ég mér vonir um að ljúka meistaraprófi innan skamms en það samanstendur af fyrrnefndu upplýsingasetri um lausnaleitarnám og kennslufræðilegri greinargerð um sama efni. Í framtíðinni hef ég svo hugsað mér að einbeita mér að því samhliða starfi mínu í Fjölbrautaskólanum við Ármúla að vinna að útbreiðslu lausnaleitarnáms og er raunar þegar byrjuð.

Ekkert af því sem fram kemur hér fyrir ofan hefði ég getað gert án stuðnings eiginmanns míns Eiríks Árnasonar sem hefur stutt mig af ráðum og dáð í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur, m.a. með því að prófarkalesa allt sem ég hef skrifað í gegnum tíðina hvort sem um hefur verið að ræða kennslugögn eða verkefni sem ég hef unnið í náminu auk þess að hvetja mig óspart til dáða ekki síst þegar á móti hefur blásið. Jafnframt hafa börnin okkar fjögur, frumburðurinn Ásgeir Þór, doktor í rafmagns- og tölvuverkfræði, tvíburadæturnar Sólveig Ása, B.Ed. og framkvæmdastjóri á lögfræðistofu og Hrafnhildur Ósk, bankastjóri í alþjóðlegum banka á Spáni og yngsta prinsessan Eyrún Lóa, nemi og ritari sem var aðeins sex ára þegar mamman fékk námsbakteríuna, ásamt tengdabörnunum fjórum og barnabörnunum sem nú eru orðin sjö, sýnt mér ómælda þolinmæði og stuðning.


Upp